Akstur undir áhrifum áfengis eða lyfja er ein af þremur algengustu orsökum banaslysa í umferðinni.
Árið 2017 urðu 238 slys og óhöpp vegna ölvunaraksturs og þar af 2 banaslys.
Ökumaður undir
áhrifum áfengis
eða fíkniefna er 52 sinnum líklegri en
allsgáður ökumaður til
að valda banaslysi.
Árið 2015 slösuðust
26 manns vegna ölvunaraksturs en
síðustu þrjú ár hafa að jafnaði slasast 60–70 manns á ári vegna ölvunar undir stýri.
Rúm 13% látinna
í umferð létust af völdum ölvunaraksturs
undanfarin 10 ár.
2013–2017 voru að jafnaði árlega rúmlega 1.500 brot vegna ölvunaraksturs. Fyrstu sex mánuði ársins 2018 voru þau 1.428.
Áfengismagn
Aldrei má aka undir áhrifum. Það þýðir að um leið og eitthvað áfengi mælist í blóði eða öndun ættir þú ekki að setjast undir stýri.
Refsimörk eru nú 0,5 prómill, en í frumvarpi sem nú er í meðferð þingsins verður það lækkað í 0,2 prómill.
Ef ávana- og fíkniefni (önnur en áfengi) mælast í blóði eða þvagi ökumanns telst hann vera undir áhrifum og þ.a.l. óhæfur til að stjórna ökutæki. Magn skiptir ekki máli.
Ef eitthvað áfengi mælist, jafnvel þó það sé undir mörkum, er ökumaður settur í tímabundið akstursbann, oftast í sólarhring.
Flest slys sem verða af völdum ölvunar eða annarskonar vímu-efnaaksturs eru mjög alvarleg.
Viðurlög við ölvunarakstri fara eftir vínandamagni í blóði sektirnar hækka og ökuleyfis-sviptingarnar verða lengri. Alltaf þarf að fara í ökupróf að nýju þegar um sviptingu ökuréttinda er að ræða.
Ökumaður sem mælist með áfengi í blóði þegar hann veldur slysi situr uppi með tjónið og kostnað vegna þess – jafnvel þótt áhrifin séu lítil.
Það getur tekið allt að 18–20 klst fyrir áfengið að fara úr líkamanum. Ekki er hægt að flýta fyrir niðurbroti vínanda í blóði með neinum hætti.

Hvað kostar ölvunarakstur mig?
Hér getur þú séð hvað ölvunarakstur kostar í beinhörðum peningum, auk óþægindanna við að missa prófið í lengri eða skemmri tíma. Gróf og ítrekuð brot geta líka kostað að ökutækið verði gert upptækt.
Sekt
Áfengismagn
Svipting
2 mánuðir
0.25 mg/l og meira
90.000 kr.
4 mánuðir
0.31 mg/l og meira
90.000 kr.
6 mánuðir
0.38 mg/l og meira
120.000 kr.
8 mánuðir
0.46 mg/l og meira
130.000 kr.
10 mánuðir
0.56 mg/l og meira
140.000 kr.
12 mánuðir
0.6 mg/l og meira
180.000 kr.
18 mánuðir
0.76 mg/l og meira
210.000 kr.
24 mánuðir
1.01 mg/l og meira
210.000 kr.
Spurt og svarað
Hvenær má ég aka undir áhrifum?
Aldrei.
Hvenær telst ég vera undir áhrifum?
Um leið og það mælist EITTHVAÐ áfengi í blóði eða öndun.
Hvað þarf mikið magn áfengis að mælast til að ökumaður teljist ekki mega stjórna vélknúnu ökutæki?
Það mælist EITTHVAÐ áfengi í blóði, jafnvel þótt það sé undir refsimörkum sem eru 0,5 prómill. Mælist það undir refsimörkum er ökumaður settur í tímabundið akstursbann sem yfirleitt er sólarhringur.
Hvað þarf mikið magn ÁVANA- og FÍKNIEFNA að mælast til að ökumaður teljist óhæfur til að stjórna vélknúnu ökutæki?
Magnið skiptir í raun ekki máli því ef það mælist ávana- og fíkniefni í blóði eða þvagi ökumanns telst hann vera undir áhrifum og þ.a.l. óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega.
Hvað tekur langan tíma fyrir vínanda að hverfa úr blóðinu?
Það getur tekið allt að 18 - 20 klst fyrir áfengið að fara úr líkamanum. Ýmsir þættir hafa áhrif á hversu lengi vínandi er að hverfa úr blóðinu svo sem magn þess áfengis sem innbyrt er og líkamsbygging einstaklingsins. Lifrin minnkar vínandann í blóðinu um 0,15 prómill á klukkustund og meðan á því stendur er best að hvílast vel. Ekki er hægt að flýta fyrir niðurbroti vínanda í blóði með neinum hætti en margir virðast halda að svo sé.
En borga tryggingarnar ekki tjónið og slysið?
Nei. Ökumaður sem mælist með áfengi í blóði þegar hann veldur slysi stendur uppi með tjónið og kostnað vegna þess. Tryggingarfélög eiga endurkröfurétt vegna slyss sem ökumaður veldur eftir neyslu áfengis - jafnvel þótt áhrifin séu lítil.
Hver er refsingin?
Alvarlegasta refsingin og töluvert algeng er sú að valda slysi. Flest slys sem verða af völdum ölvunar eða annarskonar vímuefnaaksturs eru mjög alvarleg.
Viðurlög við ölvunarakstri fara eftir vínandamagni í blóði. Eftir því sem vínandamagnið er meira í blóðinu hækka sektirnar og ökuleyfissviptingarnar verða lengri. Alltaf þarf að fara í ökupróf að nýju þegar um sviptingu ökuréttinda er að ræða.
Hvert er umfang ölvunaraksturs hér á landi?
Að meðaltali verða 220 slys með meiðslum eða dauða ásamt óhöppum án meiðsla á hverju ári hér á landi vegna ölvunaraksturs. Slysaskrá Samgöngustofu 2017
Að meðaltali kemur ölvun við sögu í 5% allra umferðarslysa.